*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 12. febrúar 2019 12:19

Laun Höskuldar helmingi hærri en Lilju

Bankastjóri Arion banka er með 56% hærri laun en bankastjóri Landsbankans. Hinn ríkisbankastjórinn með 27% hærri.

Ritstjórn
Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka, Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans og Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.
Aðsend mynd

Laun bankastjóra Landsbankans hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga en í nýlegu uppgjöri bankans kom fram að Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri bankans væri með um 3,8 milljónir króna í laun eftir hækkun á 10 mánaða tímabili um 1,75 milljónir.

Eftir gagnrýni forsætisráðherra, og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og fleiri, sagði bankaráð bankans að launin hefði lengi verið undir launum annarra í sambærilegum störfum á fjármálamarkaði og að breyting á laununum væri í samræmi við starfskjarastefnu bankans um að þau skuli vera samkeppnishæf en ekki leiðandi.

Í gærkvöldi sendi Íslandsbanki svo frá sér fréttatilkynningu þar sem bent var á að Birna Einarsdóttir, bankastjóri bankans hefði lækkað laun sín á síðasta ári um 14,1%, þannig að heildarlaunin hafi hækkað um 4,6% síðustu tvö árin.

Ef ársreikningur Íslandsbanka fyrir árið 2017 er skoðaður sést að Birna var með 48,3 milljónir í heildarlaun á árinu og 9,7 milljónir í árangurstengdar greiðslur, samanlagt 58 milljónir í árslaun, meðan Lilja Björk var með 44 milljónir í heildarlaun á síðasta ári.

Það gerir um 4,8 milljóna mánaðarlaun, en rétt rúmlega 4 milljónir ef ekki er miðað við árangurstengdu greiðslurnar.  Fyrri talan er því um 27% hærri en laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, sem styrinn stendur um. Báðir bankarnir eru í eigu ríkisins.

Hæst launaðasti bankastjóri viðskiptabankanna þriggja er svo Höskuldur Ólafsson bankastjóri hins einkarekna Arion banka, en heildarlaunagreiðslur hans á árinu 2017 námu 71,2 milljónum króna. Það er þá með 9,2 milljóna árangurstengdum greiðslum, en launin án þeirra námu 62 milljónum að því er fram kemur í ársreikningi.

Það gerir 5,9 milljónir króna á mánuði með árangurstengdu greiðslunum, en tæplega 5,2 milljónir án þeirra. Fyrri talan er þá 56% hærri en laun Lilju Bjarkar í Landsbankanum og tæplega 23% hærri en Birnu í Íslandsbanka.