Ef laun á hvern launþega, óleiðrétt fyrir mismunandi vinntíma og öðrum þáttum, en leiðrétt með kaupmáttarjöfnuði eru skoðuð má sjá að laun á Íslandi eru nokkuð á eftir Noregi og Danmörku fyrir árið 2013. Þetta kemur fram í nýjum Markaðspunktum Arion banka sem voru birtir í morgun.

Laun á Íslandi standa nokkuð jafnfætis launum á Finnlandi og Svíþjóð en nokkuð á eftir Danmörku (-12%) og Noregi (-22%). Innan atvinnugreina eru flutningar og geymsla sá flokkur þar sem Íslendingar fá frekar greidd há laun, laun í gisti- og veitingaþjónustu eru þó frekar lág. Tekið er fram í Markaðspunktum að kaupmáttur hafi aukist talsvert hér á landi og ætla má að Ísland kæmi betur út í þessum samanburði í dag.

Einnig má sjá að starfsmenn í íslenskum fyrirtækjum eru að jafnaði færri en erlendis. Meðalfjöldi starfsmanna í framleiðslu eru níu, en eru 14 víða annars staðar.

Ísland er einnig sér á báti í byggingarstarfsemi. Meðalfjöldi starfsmanna hér á landi er einungis 2, en fjöldi einyrkja og minni verktaka einkenna markaðinn. Á öðrum Norðurlöndum er meðalfjöldi starfsmanna slíkra fyrirtækja 4-5. Markaðspunktar benda á að mögulega megi velta fyrir sér hvort hér sé tækifæri til stærðarhagræðis og ná þannig fram lægri byggingarkostnaði, sem mörgum hefur verið tíðrætt um upp á síðkastið.