Laun, hlunnindi og kaupaukagreiðslur til Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, lækkuðu úr 260 milljónir króna í 215 milljónir króna milli áranna 2018 og 2019 eða um 45 milljónir króna. Mánaðarlaunin fara því úr 22 milljónum króna á mánuði í 18 milljónir króna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtum ársreikningi Össurar. Grunnlaun Jóns hækkuðu um 52 þúsund dollara, um 6,5 milljónir íslenskra króna, milli ára, úr 1,03 milljónum dollara í 1,08 milljónir dollara. Kaupaukagreiðslur drógust hins vegar saman um nærri helming, úr 573 þúsund dollurum í 289 þúsund dollara eða úr 72 milljónum króna í 36 milljónir króna.

Jón var um árabil launahæsti forstjórinn í íslensku kauphöllinni en félagið fór úr íslensku kauphöllinni árið 2017. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel á nú nafnbótina. Árslaun hans árið 2019 námu 150 milljónum króna. Marel leiðrétti ársreikning félagsins en í upphaflegri útgáfu sagði að árslaun hans hefðu numið 200 milljónum króna.

Össur hagnaðist um 69 milljónir dollara á síðasta ári miðað við 80 milljónir króna árið 2018. Þá hækkaði hlutabréfaverð félagsins um 66% á árinu.