Launastefna Landsbankans, sem íslenska ríkið á 80% hlut í, er nú til skoðunar hjá Bankasýslu ríkisins og þá sérstaklega hvernig ríkið geti haft áhrif á launastefnu þannig að hún samræmist sem best almennri stefnu ríkisins. Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslunnar, segir að ríkið sem eigandi banka hafi markað sér stefnu í launamálum.

„Í september í fyrra markaði ríkið sér stefnu er varðar laun í bönkum þar sem ríkið kemur að sem eigandi. Bankasýslunni er ætlað að framfylgja henni, en hún er til endurskoðunar þessa dagana. Í henni er talað um þrjú meginatriði. Það er að hófsemi skuli gætt í launamálum, laun séu samkeppnishæf en ekki þannig að þau séu leiðandi á markaði,“ segir Elín.

Laun forstjóra undir kjararáð

Nýlega voru laun yfirmanna hjá ríkinu og dótturfyrirtækjum færð undir kjararáð og sú stefna sett fram af hálfu stjórnvalda, að enginn yrði með hærri laun en forsætisráðherra. Föst laun forsætisráðherra eru 935 þúsund á mánuði eftir breytingu sem gerð var í sparnaðarskyni eftir hrun bankakerfisins.

Bankastjóri Landsbankans, Ásmundur Stefánsson, heyrir undir kjararáð og er með föst mánaðarlaun upp 750 þúsund. Ofan á þau bætist síðan föst yfirvinna upp á rúmlega 400 þúsund krónur og því eru heildarlaun rúmlega 1,1 milljón. Sama er uppi á teningnum hjá Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, og raunar fleiri forstjórum ríkisfyrirtækja. Markmið stjórnvalda, að enginn skuli hafa hærri laun en forsætisráðherra, næst því ekki nema að aðeins sé horft til grunnlauna.