Launavísitala í desember 2006 er 300,8 stig og lækkaði um 0,1% frá fyrri mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Lækkun vísitölunnar skýrist af því að í útreikningi gætir ekki lengur áhrifa eingreiðslu á almennum vinnumarkaði sem greidd var í árslok 2005 og kom til hækkunar launavísitölu í desember sama ár.

Eingreiðsluna má rekja til samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka Atvinnulífsins frá 15. nóvember 2005 um að hámarki 26 þúsund króna eingreiðslu í tengslum við endurskoðun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, segir Hagstofan.

Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 9,8%.

Launavísitala fyrir helstu launþegahópa á fjórða ársfjórðungi 2006 er 159,8 stig og hækkaði um 1,3% frá fyrri ársfjórðungi. Sambærileg vísitala fyrir opinbera starfsmenn og bankamenn er 162,4 stig og hækkaði um 1,5%. Vísitala fyrir almennan markað er 158,0 stig og hækkaði um 1,1%.

Launavísitala sem gildir við útreikning greiðslumarks fasteignaveðlána í febrúar 2006 er 6580 stig.