Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir mikilvægt að kjarasamningar feli ekki í sér óhóflegar launahækkanir. Þetta kom fram í framsögu Más á peningamálafundi Viðskiptaráðs á hótel Nordica í morgun. Yfirskrift fundarins er „Á Ísland heima við mörk ruslflokks?"

„Til lengdar ættu laun á vinnumarkaði, en ekki endilega hjá sérhverjum hóp, að hækka um verðbólgumarkmið að viðbættri framleiðniaukningu," segir Már. Ekki sé sjálfbært til lengri tíma ef launahækkanir í kjarasamningum séu umfram þessa tvo þætti samanlagða og hinn viðkvæmi stöðugleiki sé undir því að kjarasamningar verði hóflegir.

Gætu hækkað lánshæfismat

Í framsögu Más kom fram að hann teldi ólíklegt að lánshæfismat Íslands yrði hækkað í náinni framtíð. Það gæti hinsvegar gerst að ári liðnu ef rétt verður haldið á spilunum í efnahagsmálum á næstu.  Til að mynda mætti ekki hverfa af þeirri braut að skila hallalausum fjárlögum og stíga varlega til jarðar við afnám gjaldeyrishafta.

Jafnframt kom í máli Más að það hafi verið ákveðið afrek að Íslandi hafi tekist að halda sér í fjárfestingaflokki í jafn miklum mæli og raun bar vitni.