*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 13. mars 2019 16:22

Laun bankastjóranna lækkuð

Laun bankastjóra Landsbankans hafa verið lækkuð um 8% og Íslandsbanka um 13%.

Ritstjórn
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans og Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.
vb.is

Launakjör bankastjóra ríkisbankanna tveggja, Landsbankans og Íslandsbanka, hafa verið lækkuð samkvæmt ákvörðun bankaráðs hvors banka fyrir sig. Þetta kemur fram í bréfi frá Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðherra.

Töluverð umræða hefur verið um launakjör bankastjóranna tveggja nýverið.

Launahækkun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, frá 1. apríl í fyrra hefur verið afturkölluð, og laun samkvæmt ráðningarsamningi frá janúar 2017 þess í stað hækkuð um 7,81% til samræmis við hækkun vísitölu. Launin lækka um rétt tæp 8% og nema eftir hækkunina 3,5 milljónum króna með hlunnindum.

Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, hafa verið lækkuð um 13%, og nema nú 3,85 milljónum króna með hlunnindum, sem er 5% lægra en laun hennar námu þegar ríkið eignaðist bankann árið 2016.