Mánaðarlaun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, munu hækka um 565 þúsund krónur eftir úrskurð kjararáðs fyrr í þessum mánuði. Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun. Heildarlaun hans eru um 1.950 þúsund eftir hækkunina og hækka um 41%. Hún er afturvirk til 1. desember.

Þetta er þriðja launahækkun bankastjórans frá ársbyrjun 2009. Kjararáði barst bréf í lok nóvember á síðasta ári frá bankaráði Landsbankans þar sem óskað var eftir „endurskoðun launakjara bankastjórans“ og að engin rök standi til þess að kjararáð ákvarði lakari laun og starfskjör en þau sem hafi verið ákvörðuð fyrir seðlabankastjóra eða forstjóra Landsvirkjunar.

Lægri kjör en hjá öðrum bönkum

Bankastjórar Arion banka og Íslandsbanka heyra ekki undir kjararáð. Samkvæmt ársreikningi beggja bankanna fékk Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka 3,62 milljónir í mánaðarlaun á síðasta ári og Höskuldur Ólafsson 4,9 milljónir á sama tímabili. Fá þau einnig árangurstengdar greiðslur, ólíkt bankastjóra Landsbankans. Í fyrra námu þær 4,8 milljónum á ársgrundvelli í tilviki Birnu og 6,3 milljónum í tilviki Höskuldar á sama tíma.

Það þýðir að laun bankastjóra Landsbankans eru um 40% af kjörum bankastjóra Arion banka og um 54% af launum bankastjóra Íslandsbanka.