Á nýlegum aðalfundi Sparisjóðs Norðfjarðar var ákveðið að hækka laun úr 40.000 kr. á mánuði í 75.000 kr. Laun formanns eru tvöfalt hærri. Á vef Austurgluggans er haft eftir Jóni Einari Marteinssyni, stjórnarformanni sparisjóðsins, að ástæðuna fyrir hækkuninni megi rekja til aukinnar vinnu stjórnarmanna og breyttrar samsetningar eigenda.

Ríkið á helmingshlut í sparisjóðnum og hefur Bankasýsla ríkisins umsjón með þeim hlut. Sparisjóðurinn tapaði 12,2 m.kr. í fyrra. Fjarðabyggð er næststærsti eigandi sjóðsins með 22,4% hlut. Fulltrúi Fjarðalistans í bæjarráði Fjarðabyggðar hefur mótmælt þessari hækkun og sagt hana úr takti við þær hagræðingaraðgerðir sem sjóðurinn hefur farið í, en útibúi sjóðsins á Reyðarfirði var nýlega lokað.