*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 23. mars 2019 12:01

Þrír lækka í launum vegna verri afkomu

Laun þriggja forstjóra í Kauphöll Íslands lækkuðu þónokkuð á síðasta ári, frá 12,5% og upp í 30%

Ingvar Haraldsson
Stefán Sigurðsson, Gylfi Sigfússon og Eggert Þór Kristófersson lækkuðu allir í launum í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

Laun þriggja forstjóra í Kauphöll Íslands lækkuðu þónokkuð á síðasta ári, eða frá 12,5% og upp í 30% á meðan laun annarra forstjóra ýmist stóðu í stað eða hækkuðu frá 4% og upp í 25%

Laun forstjóra Sýnar, Eimskips og Festi lækkuðu töluvert milli ára. Mest lækkuðu laun Stefán Sigurðssonar, forstjóra Sýnar, eða úr 5,4 milljónum króna á mánuði í 3,8 milljónir króna á mánuði eða um 31%. Skýrist það af því að það sem nefnt er breytileg kjör í ársreikningnum, og má gera ráð fyrir að séu kaupaukar, hafi numið 23,4 milljónum króna árið 2017 en voru engir á síðasta ári. 

Afkoma Sýnar hefur valdið vonbrigðum. Rekstrarhagnaður Sýnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 3,25 milljörðum króna en gert var ráð fyrir að EBITDA ársins yrði 4-4,4 milljarðar króna í upphafi ársins. Í kjölfar birtingar uppgjörsins sagði Stefán starfi sínu lausu og leit stendur yfir að nýjum forstjóra. Til samanburðar hækkuðu laun Orra Haukssonar, forstjóra Símans, um 15% á milli ára, úr 4 milljónum króna á mánuði í 4,6 milljónir króna á mánuði. Ekki kemur fram í ársreikningi félagsins hvernig launagreiðslurnar skiptast milli grunnlauna og annarra greiðslna. 

Þá  lækkuðu laun Gylfa Sigfússonar, sem lét af störfum sem forstjóri Eimskips um áramótin, úr 8,6 milljónum króna á mánuði í  6,5 milljónir króna milli áranna 2017 og 2018. Launalækkunin skýrist einna helst af því að aðrar greiðslur til Gylfa lækka verulega, en inni í því eru kaupaukar, hlunnindi og lífeyrisgreiðslur. Þær lækka úr 40,5 milljónum króna í 13,7 milljónir króna á milli ára. Við ráðningu Vilhelms Más Þorsteinssonar, nýs forstjóra Eimskips, var gefið út að laun hans yrðu lægri en laun forvera hans í starfi.

Laun Eggerts Þór Kristóferssonar, forstjóra Festi, lækka einnig milli ára, eða um 12,6%. Talsverð umræða var á síðasta ári um að laun Eggerts hefðu hækkað um 21% eða um milljón krónur á mánuði á milli áranna 2016 og 2017. Bent var á að Eggert hefði sagt við Viðskiptablaðið þegar hann tók við forstjórastarfinu árið 2015 að hann væri „ódýri forstjórinn“.

Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Festi, útskýrði á aðalfundi félagsins að hækkunin skýrðist af því að árið 2016 hefði verið það besta í sögu félagsins, sem þá hét N1. Því hefði 21 milljónar króna kaupauki verið greiddur á árinu 2017. Hann hefði verið 12,8 milljónir króna árið áður. Á árinu 2018 nam kaupauki Eggerts 11,4 milljónum króna vegna afkomu ársins 2017. Hækkun launa Eggerts milli áranna 2016 og 2018 væri því 5,4%. Margrét benti á launavísitölu og launaþróun annarra starfsmanna til samanburðar en launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 13,7% milli áranna 2016 og 2018. Þá benti Margrét á að hlutabréfverð félagsins hefði hækkað um 90% í forstjóratíð Eggerts.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.