Aðalfundur Glitnis banka hf. samþykkir á fundi sínum í dag að þóknun til formanns stjórnar verði 1.050.000 krónur á mánuði árið 2007. Það jafngildir þreföldun á launum formanns stjórnar frá árinu 2005 en þá fékk stjórnarformaður 350.000 krónur í laun á mánuði. Þá hét bankinn reyndar Íslandsbanki. Sé tekið mið af síðasta ári hafa laun formanns ríflega tvöfaldast.

Þóknun til annarra stjórnarmanna hefur einnig hækkað verulega á sama tveggja ára tímabili en á fundinum í dag var samþykkt að laun hvers stjórnarmanns verði 350.000 krónur á mánuði en fyrir árið 2005 voru laun þeirra 150.000 krónur. Á síðasta ári voru launin 175.000 krónur og tvöfaldast því á milli ára.

Á fundinum var þóknun varaformanns stjórnar Glitnis ákveðin 700.000 krónur og þóknun varamanna í stjórn verði 100.000 krónur fyrir hvern setinn fund. Þóknun stjórnarmanna fyrir setu í undirnefndum var ákveðin 75.000 krónur á mánuði.

Á aðalfundi bankans fyrir ári síðan, þegar hann hét reyndar Íslandsbanki hf.,  var samþykkt að þóknun til hvers stjórnarmanns yrði 175.000 á mánuði, þóknun varaformanns stjórnar yrði 262.500 krónur og þóknun til formanns stjórnar yrði 500.000 krónur á mánuði. Þóknun varamanna í stjórn var ákveðin 75.000 krónur fyrir hvern setinn fund. Þóknun stjórnarmanna fyrir setu í undirnefndum var ákveðin 75.000 krónur fyrir hvern setinn fund í viðkomandi nefnd.

Eftirtaldir voru kosnir í stjórn Glitnis: Einar Sveinsson, Guðmundur Ólason, Hannes Smárason, Jón Sigurðsson, Karl Emil Wernersson, Skarphéðinn Berg Steinarsson og Þórarinn V. Þórarinsson.

Varamenn:

Eiríkur S. Jóhannsson, Guðmundur Ásgeirsson, Gunnar Jónsson, Hlíf Sturludóttir, Paul Richmond Davidson,
Steingrímur Wernersson og Þorsteinn M. Jónsson.

Að loknum aðalfundi hélt ný stjórn Glitnis banka hf. fund og skipti með sér verkum. Þar var Einar Sveinsson kjörinn formaður stjórnar og Karl Wernersson varaformaður stjórnar.