Laun stjórnarformanns FL Group verða allt að 1.200.000 krónur á mánuði á næsta ári að því er kemur fram í samþykktum aðalfundar. Það er ríflega þreföldun á launum stjórnarformanns á milli ára. Laun  varaformanns stjórnar og annarra stjórnarmanna ríflega tvöfaldast á milli ára.

Á aðalfundi FL Group var samþykkt að stjórnarlaun á tímabilinu frá aðalfundi 2007 til aðalfundar 2008 verði sem hér segir:

Stjórnarformaður kr. 700.000 á mánuði.
Varaformaður kr. 500.000 á mánuði.
Aðrir stjórnarmenn kr. 350.000 á mánuði.
Varamönnum verði greiddar kr. 100.000 fyrir hvern setinn fund.


Þar sem gert er ráð fyrir að stjórnarmenn skuli fá fasta þóknun fyrir hvern fund sem þeir sitja í undirnefndum er gert ráð fyrir að laun séu hærri en rakið er hér að framan. Þessi fasta þóknun jafngildir því að greitt verði kr. 200.000 til handa formönnum nefnda fyrir hvern fund en kr. 100.000 til handa öðrum nefndarmönnum. Þóknun fyrir fundasetu í undirnefndum á tímabilinu skal þó ekki vera hærri en kr. 1.200.000 fyrir formann nefndar og kr. 600.000 fyrir aðra nefndarmenn. Sérgreiðslur fyrir fundasetur eru nýmæli en hafa verið að ryðja sér til rúms hjá fleiri félögum.

Aðalfundur FL Group á síðasta ári samþykkti að stjórnarformaður fengi þá kr. 375.000 á mánuði en stjórnarmenn kr. 250.000 á mánuði. Varamönnum átti að greiða kr. 75.000 fyrir hvern setinn fund. Kveðið var á um að mánaðarlegar greiðslur til varamanna yrðu þó ekki hærri en sem nemur mánaðargreiðslum til stjórnarmanna.