Stjórn Icelandair Group hf. leggur til við komandi aðalfund félagsins að laun stjórnarmanna og stjórnarformanns félagsins hækki allverulega eða um 56%.

Í tillögu stjórnar er lagt til að laun stjórnarmanna hækki um 90 þúsund krónur á mánuði, úr 160 þúsund krónum í 250 þúsund. Þá er lagt til að laun stjórnarformanns hækki um 180 þúsund krónur á mánuði, úr 320 þúsund krónum í 500 þúsund og að laun varaformanns stjórnar verði 375 þúsund krónur á mánuði.

Aðalfundur Icelandair Group fer fram þann 23. mars nk. Á fundinum verður lögð fram tillaga stjórnar um að greiddur verði 800 milljóna króna arður til hluthafa. Þá er einnig lagt til að stjórninni verði heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að 500.000.000 króna að nafnvirði með áskrift nýrra hluta.

Rétt er að taka fram að Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair Group og fyrrv. forstjóri Flugleiða, hefur sl. 2 ár afsalað sér öllum stjórnarlaunum og hafa þau þess í stað runnið til Vildarbarna Icelandair. Samanlagt er um að ræða 7,2 milljónir króna.