Laun stjórnarmanna í FL Group lækka um helming milli ára, samkvæmt samþykkt á aðalfundi félagsins í dag.

Stjórnarformaður fær 350 þúsund krónur á mánuði, varaformaður 250 þúsund á mánuði en aðrir stjórnarmenn 175 þúsund krónur á mánuði.

Jafnframt verða varamönnum greiddar 50 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund.

Þá var samþykkt að stjórnarmenn fái fasta þóknun fyrir hvern fund sem þeir sitja í undirnefndum stjórnar og skal sú þóknun vera 100 þúsund krónur handa formönnum nefnda fyrir hvern fund en 50 þúsund krónur til handa öðrum nefndarmönnum.

Þóknun fyrir fundasetu í undirnefndum á tímabilinu skal þó ekki vera hærri en  600 þúsund fyrir formann nefndar og 300 þúsund krónur fyrir aðra nefndarmenn.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs Group, er stjórnarformaður FL Group og Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Fons fjárfestingafélags, er varaformaður félagsins.