Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan á ársgrundvelli um 4,3% í nýliðnum ágúst sem er álíka mikið og síðustu tvö mánuðina á undan. Ekki var um neina hækkun að ræða á milli mánaða, en samkvæmt Hagsjá Landsbankans hefur hægt verulega á hækkunartakti launa á þessu árinu sem sé nú kominn niður í 4%. Á árunum 2017-2018 var hækkunin á ársgrundvelli hins vegar á bilinu 6-8%.

Segir í Hagsjánni að ekki sé að sjá að mikið launaskrið sé í gangi og því megi vænta tiltölulega rólegrar þróunar á almenna markaðnum fram í maí þegar næstu áfangahækkanir samkvæmt samningum taka gildi.

„Kaupmáttur launa hefur verið stöðugur undanfarna mánuði, og jókst lítillega eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur var þannig 1,1% meiri nú í ágúst en í ágúst 2018. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um tæp 26%, eða u.þ.b. 6% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd. Séð í lengri tíma samhengi hefur kaupmáttur launa aldrei verið meiri. Nú í ágúst var kaupmáttur þannig um 25% hærri en hann var mestur á árunum fyrir hrun,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Þegar litið er á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá 2. ársfjórðungi 2018 til 2. ársfjórðungs 2019, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum voru ívið minni en á þeim opinbera. Munurinn nemur u.þ.b. 0,3 prósentustigum.

„Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 2. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, 7,2%, og 6,9% hjá verkafólki. Laun stjórnenda og sérfræðinga hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða um 3,6%. Laun annarra starfsstétta hafa hækkað í kringum 5-6% á þessum tíma sem er álíka og hækkun launavísitölunnar sem hækkaði um 5,4% á þeim tíma.

Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks og verkafólks hækkuðu einnig mest á milli 1. og 2. ársfjórðungs 2019. Þessar tölur eru því sterk vísbending um að markmið kjarasamninga á almennum markaði um meiri hækkun lægri launa en þeirra hærri hafi náðst, a.m.k. í fyrstu umferð.

Sé litið til atvinnugreina hækkuðu laun áberandi mest í flutningum og geymslustarfsemi frá 2. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019, eða um 6,7%, sem er vel umfram hækkun launavísitölunnar. Laun í fjármála- og tryggingarstarfsemi hækkuðu áberandi minnst enda komu nýir kjarasamningar á fjármálamarkaðnum ekki til framkvæmda fyrr en á 3. árfjórðungi í ár.“