Laun þingmanna og ráðherra verða lækkuð um 5 til 15% samkvæmt frumvarpi sem afgreitt var úr stjórnarflokkunum í gær. Þá er í frumvarpinu miðað við að launin verði fryst út árið 2009.

Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, beindi því til kjararáðs nýverið að laun þingmanna og ráðherra yrðu lækkuð. Kjararáð komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki lagaheimild til að lækka launin.

Því var brugðið á það ráð að semja lagafrumvarp um lækkunina. Búast má við að það verði lagt fram á Alþingi í dag eða á allra næstu dögum.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um kjararáð. Í fyrstu grein frumvarpsins er því enn fremur beint til kjararáðs að endurskoða kjör annarra er undir það heyra, svo fljótt sem auðið er.

(Fréttin var uppfærð kl. 13.30.)