Mannvit verkfræðistofa, sem er stærsta ráðgjafarfyrirtæki landsins á sviði verkfræði og tækni, hefur sagt upp rúmlega 20 manns og lækkað laun æðstu stjórnenda um 20%.

Hjá fyrirtækinu hafa starfað hátt í 400 manns, en stærsti hluti þeirra er verkfræðingar í ýmsum greinum.

„Við sem störfum á þessum markaði erum að verða vör við mjög snöggan samdrátt og erum að bregðast við því að margvíslegan hátt," segir Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits.

„Það gerum við bæði með launalækkun stjórnenda um 20% sem tekið var á 1. nóvember. Þá sögðum við upp núna um mánaðamótin 21 fastráðnum starfsmanni og 5 lausráðnum. Síðan höfum við verið að semja við fólk um skertan vinnudag. Við erum því að grípa til margvíslegra ráðstafana og erum að bregðast fyrirfram við samdrætti á næsta ári. Það er of seint að fara að bregðast við þegar menn eru komnir út í pyttinn."

Uppsagnirnar hjá Mannviti nú falla ekki undir það að vera tilkynningaskyldar sem fjöldauppsagnir, en slíkt miðast við 30 manns. Uppsagnirnar hjá Mannviti nú eru rúmlega 5% af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins.