Umboðsmaður Alþingis ritaði fjármálaráðherra bréf, eftir að hafa borist ábendingar um að framkvæmd launalækkana ríkisstarfsmanna, sem var samþykkt af ríkisstjórn 18. ágúst 2009, hefðu verið með mismunandi hætti milli einstakra ríkisstofnana. Dæmi eru um að ekki hafi komið til lækkana hjá ákveðnum stofnunum. Bréfið er dagsett 28. mars 2011.Þar er jafnframt vísað í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2009 þar sem kemur fram að misbrestur hafi orðið á ákvarðanir kjararáðs.

Fjármálaráðuneytinu var gert að leiða verkefnið. Umboðsmaður óskar eftir tilteknum gögnum og upplýsingum frá fjármálaráðherra sem lúta að því hvort samræmis og jafnræðis hafi verið gætt gagnvart starfsmönnum ríkisins.

Upplýsingar og gögn sem umboðsmaður óskar eftir eru í fimm liðum:

1. Hvernig þess hafi verið gætt af hálfu fjármálaráðuneytisins að samræmis og jafnræðis væri gætt gagnvart starfsmönnum ríkisins við framkvæmd þeirrar lækkunar launa sem um var fjallað í fyrstu tveimur liðum samþykktar ríkisstjórnarinnar frá 18. ágúst 2009 bæði að því er varðar breytingar á launum starfsmanna og að þessar launabreytingar kæmu með sambærilegum hætti til framkvæmda hjá stofnunum ríkisins þannig að skilyrði jafnræðisreglna væru uppfyllt.

2. Afrit af þeim bréfum og öðrum gögnum sem ráðuneytið kann að hafa útbúið og afhent öðrum ráðuneytum og stofnunum til að koma þessum launabreytingum í framkvæmd og tryggja samræmi í ákvörðunum um þær.

3. Upplýsingar sem ráðuneytið hefur aflað og tekið saman um hvernig ofangreindar launabreytingar hafa komið til framkvæmda hjá ráðuneytum og einstökum stofnunum, þ.m.t. hvenær og í hverju þær voru fólgnar.

4. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um hver hafi verið viðbrögð gagnvart þeim stofnunum ríkisins, þ.m.t. ráðuneytum, ef ofangreindum launabreytingum var ekki komið í framkvæmd eða ekki gætt samræmis og jafnræðis að mati ráðuneytisins við framkvæmd þeirra.

5. Að því er varðar framkvæmd á ákvörðunum kjararáðs um breytingar á launum framkvæmdastjóra hlutafélaga í eigu ríkisins óska ég eftir upplýsingum um hvernig ráðuneytið hafi fylgst með því að þær kæmu til framkvæmda miðað við gildistöku þeirra samkvæmt ákvörðunum kjararáðs og þá þannig að samræmis og jafnræðis væri gætt milli þeirra sem heyra lögum samkvæmt undir kjararáð.

Á heimasíðu Umboðsmanns kemur fram að svarið skuli berast í síðasta lagi 15. apríl síðastliðinn. Pressan greinir frá því að ráðuneytið gat ekki gefið svör innan hálfs mánaðar. Því var beðið um frest til 6. maí sem var veittur.