*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 27. mars 2018 11:22

Laun útvarpsstjóra hækkuðu um 16%

Magnús Geir Þórðarson fær um 1.800 þúsund krónur á mánuði eftir laun útvarpsstjóra heyrðu ekki lengur undir Kjararáð.

Ritstjórn
Magnús Geir Þórðarson er útvarpsstjóri RÚV ohf.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Heildarlaun og þóknanir útvarpsstjóra hækkuðu í 22,9 milljónir króna á síðasta ári, sem þýðir að mánaðarlaun hans hafa numið um 1,9 milljónir króna á mánuði. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi RÚV fyrir síðasta ár, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun jókst framlag ríkisins til stofnunarinnar um 8,6% á milli ára.

Laun Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra, sem og þóknanir á árinu 2016 námu 17,2 milljónum króna. Það gerir um 1,43 milljónir á mánuði, sem þýðir um 33,1% aukningu milli ára. Launahækkunin milli ára var þó ekki það há þar sem útvarpsstjóri tók fæðingarorlof á árinu 2016.

Nam hækkunin samkvæmt áréttingu frá RÚV til Kjarnans um 16% og fóru launin úr 1.550 þúsund krónum árið 2016 í 1.800 þúsund krónur á síðasta ári. Laun stjórnarmanna fóru hins vegar úr 11,8 milljónum króna í 14,3 milljónir, sem gerir um 21% hækkun.

Stöðugildum fjölgaði um 2 milli ára

Gjaldfærð laun og lífeyrissjóðsgreiðslur til annarra æðstu stjórnenda en útvarpsstjóra hækkuðu svo milli ára úr 119,6 milljónum árið 2016 í 124,9 milljónir á síðasta ári. Sú hækkun nemur um 4,43% milli áranna, en um mitt síðasta ár tóku gildi breytingar á lögum um Kjararáð þar sem laun æðstu stjórnenda ýmissa stofnana voru færð undan ákvörðun ráðsins.

Heildarlaunagreiðslur RÚV jukust milli áranna úr 2.044 milljónum króna í 2.111 milljónir, eða um 3,3%, en stöðugildum fjölgaði á sama tíma úr 258 í 260. Með lífeyrissjóðsgreiðslum og öðrum launatengdum gjöldum námu launagreiðslurnar alls 2.585.684 þúsundum króna á síðasta ári. Er það hækkun um rétt rúmlega 100 milljónir frá fyrra ári.

Meðallaun í auglýsingadeild um 940 þúsund krónur

Þar af fóru tæplega 225 milljónir í greiðslur til starfsmanna í samkeppnisrekstri, sem er þá væntanlega auglýsingadeild fyrirtækisins. Launin árið 2016 í sama flokki námu 217.560 þúsund krónum, og hækkuðu þau um 4,1% milli áranna.

Samkvæmt vef RÚV virðist sem 20 starfsmenn vinni í auglýsingadeildinni, það er við auglýsingagerð og -sölu hjá stofnuninni, sem myndi þá þýða að meðallaun við auglýsingasölu séu um 11.240 þúsund á ári eða um 937 þúsund krónur á mánuði.