Málsvarnarlaun verjenda í Kaupþingsmáli nema rúmum 263 milljónum króna. Hlutur sakborninga sjálfra nemur um 164 milljónum króna, en ríkissjóður greiðir verjendum tæpar 98 milljónir króna. Hlutdeild sakborninga nemur því 165 milljónum króna.

  • Hreiðar Már Sigurðsson greiðir verjanda sínum, Herði Felix Harðarsyni hrl., rúmlega 31 milljón króna. Ríkissjóður greiðir honum tæplega 16 milljónir, sem gera samtals rúmar 47 milljónir króna.
  • Sigurður Einarsson þarf að greiða Gesti Jónssyni hrl., 23,1 milljón króna, en ríkissjóður greiðir tæpar 12 milljónir, samtals um 35 milljónir króna.
  • Ingólfur Helgason greiðir Grím Sigurðssyni hrl. rúmar 27 milljónir króna, en ríkissjóður ber 1/3 af málsvarnarlaunum, eða tæpar 14 milljónir króna. Þá greiðir ríkissjóður málsvarnarlaun fyrri verjanda, Jóhannesar Bjarna Björnssonar hrl., 17.201.745. Málsvarnarlaun vegna varnar Ingólfs nema því samtals 58 milljónum króna.
  • Einar Pálmi Sigmundsson greiðir Gizuri Bergsteinssyni hrl. 14,6 milljónir króna, Birnir Sær Björnsson greiðir Halldóri Jónssyni hrl. 24,6 milljónir og Pétur Kristinn Guðmarsson greiðir Vífil Harðarsyni hrl. sömu fjárhæð í málsvarnarlaun.
  • Magnús Guðmundsson greiðir verjanda sínum, Kristínu Edwald hrl., engin málsvarnarlaun, enda var hann sýkn af þeim hlutum ákærunnar sem ekki var vísað frá. Ríkissjóður greiðir því málsvarnarlaunin, sem eru samtals 19,8 milljónir króna.
  • Bjarki H. Diego greiðir Jóhannesi Sigurðssyni hrl. 18,9 milljónir króna, en ríkissjóður greiðir 1/4 hluta málsvarnarlauna, eða 6,3 milljónir króna, samtals 25,2 milljónir. Ofan á það leggst þóknun Brynjars Níelssonar hrl., 1,6 milljónir sem var verjandi hans á rannsóknarstigi málsins.
  • Björk Þórarinsdóttir var sýkn og greiðir Halldóri Jónssyni hrl. því ekki málsvarnarlaun. Ríkissjóður greiðir þau, en þau nema 10,7 milljónum króna.

Leiðrétt kl. 14:26:

Í fyrri útgáfu var ekki tekið tillit til málsvarnarlauna Jóhannesar Bjarna Björnssonar hrl. Það hefur verið leiðrétt.