Vísbending er um að sú áhersla sem lögð hefur verið á mesta hækkun lægstu launa hafa náð nokkuð vel fram að ganga á undanförnum árum. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans um vinnumarkaðinn.

Á tímabilinu janúar 2015 til október 2021 hafa laun verkafólks og þjónustufólks hækkað um rúm 70% á meðan laun stjórnenda hafa hækkað um rúm 40% og laun sérfræðinga um rúm 50%. Þegar laun starfsstétta eru skoðuð yfir tíma má meðal annars sjá hvernig laun verkafólks og þjónustu- og sölu og afgreiðslufólks tóku stökk upp á við fyrir ári síðan. Á árunum 2015-2021 er um 30-40 prósentusgia munur á launahækkunum þessara starfsstétta.

Opinberi markaðurinn leiðir launahækkanir

Samkvæmt hagsjá Landsbankans sem kom út í gær, hafa laun á almenna markaðnum hækkað minna en á opinbera markaðnum milli októbermánaða 2020 og 2021. Launin hækkuðu um 6,5% á almenna markaðnum á tímabilinu, samanborið við 10,4% launahækkun á opinbera markaðnum. Þar af hækkuðu laun um 9,5% hjá ríkinu og um 11,7% hjá sveitarfélögum.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan var fylgni framan af á milli launaþróunar á hinum almenna vinnumarkaði og á opinberum vinnumarkaði. Þegar kjarasamningar á opinbera markaðnum komu til framkvæmda haustið 2020 hefur opinberi markaðurinn leitt launabreytingar á vinnumarkaði. Töluvert bil hefur verið á launaþróun milli þessara markaða síðan þá.

launaþróun
launaþróun
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kjarasamningar á almenna markaðnum renna nær allir út í lok október á þessu ári og samningar á þeim opinbera í lok mars 2023. Því fer brátt að hefjast gerð nýrra kjarasamninga og umræðan um launamál mun aukast, að því er kemur fram í hagsjánni.