Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga var stofnuð með samkomulagi stærstu aðila á vinnumarkaði fyrir rúmu einu og hálfu ári. Markmið samstarfsins er að bæta vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og auka skilvirkni við gerð þeirra. Liður í þessu er útgáfa nýrrar ríflega 100 blaðsíðna skýrslu, sem kom út fyrir skömmu og ber heitið "Í aðdraganda kjarasamninga: Efnahagsumhverfi og launaþróun."

Þegar litið er á launaþróun starfsstétta, burtséð frá því í hvaða atvinnugreinum fólk starfar, hafa laun verkafólks hækkað mest á tímabilinu frá 2006 til 2014. Í öllum atvinnugreinunum sem skoðaðar voru í skýrslunni hækkaði þessi hópur mest og alltaf umfram launavísitölu. Laun sölu- og afgreiðslufólks hefur hækkað í takt við launavísitölu en laun iðnaðarmanna minna en vísitalan.

72% hækkun

Þegar litið þróun launa eftir starfsstéttum og atvinnugreinum á almenna markaðnum er megin niðurstaða skýrslunnar sú að frá árinu 2006 til 2014 hækkuðu laun skrifstofufólks og verkafólks í iðnaði mest og meira en launavísitala. Þannig hafa laun verkafólks í iðnaði hækkað um 72% á tímabilinu á sama tíma og vísitalan hefur hækkað um 63%. Laun millistjórnenda í iðnaði hafa hækkað minna en laun annarra stétta eða um tæplega 50%.

Launa starfsmanna í verslun og þjónustu hækkuðu ívið minna en laun starfsfólks í iðnaði. Laun verkafólks í verslun og þjónustu og sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu um svipað hlutfall og launavísitala og laun millistjórnenda hækkuðu álíka og í iðnaði, eða um 50%.

Í samgöngum og flutningum hafa laun hækkað nokkuð meira en í verslun og þjónustu. Laun verkafólks og skrifstofufólks í samgöngum og flutningum hækkuðu þannig um tæp 69%. Athygli vekur að laun iðnaðarmanna í þessum geira hafa aðeins hækkað um 37%.

Í skýrslunni er einnig skoðuð launaþróun einstakra starfsstétta eftir viðfangsefnum hins opinbera, annars vegar hjá ríkinu og hins vegar hjá sveitarfélögum. Í stórum dráttum er niðurstaðan sú sama og á almennum vinnumarkaði, þ.e. laun verkafólks hafa hækkað mest en laun millistjórnenda minna en annarra starfsstétta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .