*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 7. nóvember 2019 14:37

Laun verkamanna í Þýskalandi viðmiðið

Ásgeir Jónsson segir Íslendinga ekki geta mótað eigin stefnu á vinnumarkaði óháð alþjóðlegri launaþróun.

Júlíus Þór Halldórsson
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri var hress á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir lykilatriði að rétt sé unnið úr þeirri fordæmalausu stöðu sem upp sé komin í efnahagsmálum. Íslendingar geti ekki mótað sér eigin stefnu á vinnumarkaði óháð alþjóðlegri launaþróun, en laun verkamanna í Þýskalandi séu viðmið fyrir alla Evrópu. Þetta kom fram í framsögu Ásgeirs á peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun.

„Laun verkamanna í þýskalandi eru viðmið fyrir alla Evrópu, og það er líka okkar viðmið þó við séum ekki í evrunni. Ef við ætlum að halda stöðugu gengi, ef við ætlum að halda stöðugu verðlagi, þá eru laun verkamanna í þýskalandi okkar viðmið eins og fyrir alla evrópu. Ef okkur dettur í hug að hækka laun hér meira – leiðrétt fyrir framleiðni – en í Þýskalandi, þá mun það koma niður á okkur, og peningastefnan getur ekki viðhaldið stöðugleika til lengdar. Það bara liggur í augum uppi,“ sagði seðlabankastjórinn.

Benti hann á að raungengi krónunnar væri eitt það hæsta sem þekkst hafi í niðursveiflu hér á landi. „Við sjáum það að þó að raungengið hafi lækkað aðeins þá er það samt tiltölulega hátt; Ísland er dýrt í alþjóðlegu samhengi. Raungengi er mælikvarði á samkeppnishæfni, og við erum ennþá tiltölulega hátt uppi,“ sagði hann, en hærra raungengi jafngildir að öðru óbreyttu verra samkeppnishæfi.

Þá lýsti hann því hvernig yfirstandandi niðursveifla hagkerfisins sé frábrugðin því sem Íslendingar eigi að venjast. „Við erum að sjá núna öðruvísi niðursveiflu en við höfum séð frá seinna stríði, eða frá því amma var ung.“

Sem dæmi væri þetta fyrsta niðursveiflan í manna minnum þar sem einkaneysla drægist ekki saman. „Við höfum alltaf gengið dálítið hratt um gleðinnar dyr á Íslandi. Í uppsveiflu höfum við misst stjórn á eftirspurninni, einkaneyslunni, jafnvel með skuldsetningu, sem hefur síðan leitt til innflutnings, vöruskiptahalla, blæðandi greiðslujafnaðar og síðan gengisfellingu. Seðlabankinn hefur svo þurft að hækka vexti til að verja gengið. Þá hefur einkaneysla í kjölfarið hrunið og svo framvegis. Við erum ekki að sjá það. Við erum semsagt að fá miklu meiri stöðugleika fyrir heimilin í landinu. Fólk getur gengið að ákveðnum kaupmætti, gert áætlanir um sín útgjöld og svo framvegis og gengið að þessum stöðugleika. Það er þessi ábati sem góð peningastefna skilar.“