Heildarlaun félagsmanna innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur hækkuðu um 5% á milli áranna 2003 og 2004, úr 249 þúsund á mánuði í 273 þúsund. Á sama tímabili hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 3,8%. Sölu- og afgreiðslufólk hækkaði mest eða um 10%. Helmingur félagsmanna VR fór í launaviðtal á síðasta ári en þeir sem fóru í viðtal eru með 7% hærri laun en þeir sem ekki fóru í viðtal. Þetta er meðal þess sem má lesa úr niðurstöðum launakönnunar VR árið 2004.

Á milli kannanna árin 2003 og 2004 voru engar samningabundnar hækkanir og nýir kjarasamningar voru undiritaður eftir að könnunin var gerð.

Helstu niðurstöður könnunarinnar í ár eru sem hér segir:

Sölu- og afgreiðslufólk hækkaði mest eða um 10%, þar af hækkuðu heildarlaun fyrir afgreiðslu á sérvöru/matvöru um 16%.

Það vekur athygli að hærri stjórnendur eru ekki lengur launahæstir, forstöðumenn og sviðsstjórar, sem eru að heita ný stétt á Íslandi, fá hærri laun, 424 þúsund í heildarlaun á mánuði. Í öðru sæti eru markaðsstjórar með 389 þúsund og hærri stjórnendur í því þriðja með 371 þúsund.
Afgreiðslufólk á kassa hefur lægstu launin, heildarlaun 154 þúsund á mánuði. Matráðskonur og matsveinar sem og starfsfólk í ræstingum hefur 190-192 þúsund á mánuði.

Hæstu heildarlaunin eru greidd í fjarskiptafyrirtækjum og fyrirtækjum í sölu og þjónustu á tölvum eða 315 þúsund. Laun í þessum geira lækkuðu hins vegar um 3% frá árinu 2003.

Lægstu launin eru greidd í smásölu. Smásölufyrirtæki með lyf, hjúkrunar- og snyrtivörur greiddu 218 þúsund á mánuði sem er 1% hærra en árið 2003, en heildarlaun í stórmörkuðum námu 221 þúsund og hækkuðu um 9% á milli ára.

Karlar eru með 22% hærri heildarlaun en konur, 307 þúsund á mánuði samanborið við 252 þúsund. Þetta er sami launamunur og árið 2003. Miðað er við starfsfólk í fullu starfi. Kynbundinn launamunur, þ.e. þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs og starfsstéttar er 15%. Árið 2003 hann 14% en munurinn á milli ára er ekki marktækur.
Háskólagengnir hafa að meðaltali 32% hærri heildarlaun en aðrir. Þegar búið er að taka tilliti til kyns, aldurs, vinnutíma, starfsaldurs og starfsstéttar er munurinn 19%.

Vinnutíminn hefur lengst um rúma 1,5 klst. frá síðustu könnun og er núna 44,8 klst. á viku. Vinnuvika karla er 47,5 klst en kvenna 42,6 klst.
Tæplega 25% félagsmanna vinna í fjarvinnu, að meðaltali 10 tíma á viku.
40% þáttakenda eru sáttir við launin sín en 35% ósáttir. Karlar eru sáttari en konur.

62,6% finnst hæfni sín á vinnumarkaði hafa batnað á árinu en 2,5% finnst hún hafa versnað. Karlar eru ívið jákvæðari en konur hvað þetta varðar, 64% á móti 62%.