Yfirmenn í föllnu viðskiptabönkunum þremur, Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum, hafa margir hverjir stefnt þrotabúum gömlu bankanna vegna ágreinings um laun. Málin eru mörg hver komin til kasta dómstóla.

Þannig eru mál Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra Kaupþings, Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, og Steingríms Kárasonar, fyrrverandi yfirmanns fjárstýringar sama banka, tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. október nk.

Mál Ríkharðs Daðasonar, fyrrverandi starfsmanns bankans, er einnig tekið fyrir þann dag.

Tugir mála sem eru svipaðs eðlis bíða þess að verða tekin fyrir á næstu vikum.