Launagreiðendur á Íslandi voru að jafnaði 18.441 talsins á tímabilinu frá mars 2018 til febrúar 2019. Það eru 560 fleiri en tólf mánuðum þar á undan eða sem jafngildir 3,1 prósent fjölgun milli tímabila. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 194.700 einstaklingum laun sem er aukning um 4.800, jafngildi 2,5% aukningu, samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Í febrúar 2019 voru um 127.600 launþegar í viðskiptahagkerfinu og hefur þeim fækkað um 200 ( 0,1%) samanborið við febrúar 2018. Í heild hefur launþegum fjölgað um 1.400 (0,8%) á sama tímabili.

Launþegum í febrúar 2019 miðað við sama mánuð 2018 fækkaði um 300 í sjávarútvegi niður í 8.100 eða sem jafngildir 3,2% fækkun. Lítils háttar fækkun launþega átti sér einnig stað í ferðaþjónustu, smásöluverslun, viðgerðum og viðhaldi ökutækja.

Launþegum fjölgað um 500 eða 3,5%í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, en þar starfa nú 13.400 einstaklingar. Launþegum fjölgaði einnig í framleiðslu (að sjávarútvegi undanskildum), heildverslun, Fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu, heilbrigðis- og umönnunarþjónustu.