Frá febrúar 2019 til janúar 2020 voru að jafnaði 18.713 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 249, eða sem nemur 1,3%, frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Þetta er meðal þess sem kemur fram á vef Hagstofu Íslands .

„Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 193.700 einstaklingum laun sem er fækkun um 900 (0,4%) samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Þar segir jafnframt að samtals hafi verið um 122.600 launþegar í viðskiptahagkerfinu í janúar 2020 og þeim hafi fækkað um 5.800, eða 4,5%, samanborið við janúar 2019. Á sama tímabili hafi launþegum í heild fækkað um 3.900, eða 2,1%. Launþegum hafi fækkað mest í einkennandi greinum ferðaþjónustu, um 9,8%, og í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 7,7%.