Á 12 mánaða tímabili, frá september 2017 til ágúst 2018, voru að jafnaði 18.127 launagreiðendur á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 645 (3,7%) frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Á sama tímabili greiddu launagreiðendur að meðaltali um 192.800 einstaklingum laun sem er aukning um 6.900 (3,7%) samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hagstofu Íslands .

Í ágúst 2018 voru 2.047 launagreiðendur og um 31.700 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu, og hefur launþegum fækkað um 100 (0,3%) samanborið við ágúst 2017. Á sama tímabili hefur launþegum í heild fjölgað um 4.200 (2,1%).

Fleiri konur starfa í ferðaþjónustu á sumrin og fleiri karlar á veturna

Í júní og júlí 2018 voru rúmlega 35 þúsund manns starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Að jafnaði er helmingur starfsfólks konur, en hjá konum eru meiri árstímasveiflur. Undanfarin ár hafa fleiri konur en karlar starfað í ferðaþjónustu á sumrin, en fleiri karlmenn á veturna.

Stór hluti starfsfólks í ferðaþjónustu er af erlendum uppruna. Á árunum 2008-2011 voru að jafnaði 15% starfsfólks af erlendum uppruna, en nú er það hlutfall komið í 30%. Einnig er algengara að starfsfólk í ferðaþjónustu hafi ekki lögheimili á Íslandi, sem þýðir að annaðhvort stoppar það stutt eða er nýflutt til landsins.

Karlmenn 94% starfsfólks í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð

Í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð eru karlmenn um 94% starfsfólks og hefur það hlutfall haldist stöðugt síðast liðinn áratug. Á sama tíma hafa orðið miklar sveiflur í fjölda starfsfólks. Sumarið 2008 voru um 19 þúsund starfsmenn í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en eftir hrun fækkaði þeim mikið og voru um 9 þúsund sumarið 2011. Sumarið 2018 var fjöldi starfsmanna í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð kominn í um 16 þúsund. Á árunum fyrir hrun störfuðu margir innflytjendur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð. Fyrri hluta árs 2008 var hlutfall starfsfólks af erlendum uppruna um 30% en fór niður í 10% á árunum 2010-2013. Nú er hlutfallið aftur komið í 30%.