Launagreiðendum á Íslandi fjölgaði á árinu 2016 um 4,4% frá árinu 2015 og voru 16.721 á síðasta ári að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar .

„Á síðasta ári greiddu launagreiðendur að meðaltali um 180.100 einstaklingum laun sem er aukning um 8.400 (4,9%) samanborið við árið á undan.

Skipt eftir atvinnugreinum hefur launþegum fjölgað mikið á milli ára hjá launagreiðendum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Launþegum hefur hins vegar fækkað í sjávarútvegi.

Á árinu 2016 voru að meðaltali 1.577 launagreiðendur og um 24.200 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 3.800 eða um 18,7% frá árinu á undan.

Sömuleiðis voru að meðaltali 2.404 launagreiðendur og um 10.400 launþegar í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.400 eða um 15,6% á einu ári.

Hafa verður í huga að í þessum tölum eru ekki upplýsingar um einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu og greiða sjálfum sér laun, en slíkt rekstrarform er algengt í byggingariðnaði, landbúnaði, hugverkaiðnaði og skapandi greinum svo dæmi séu tekin," segir í frétt Hagstofunnar.

„Heildarfjöldi launagreiðenda í nóvember 2016 telst nú vera 16.938 og heildarfjöldi launþega 184.100. Fjöldi launþega jókst um 11.100 (6,5%) frá nóvember 2015 til nóvember 2016.

Í fréttatilkynningu í janúar 2017 töldust vera 16.498 launagreiðendur og 183.300 launþegar í nóvember 2016. Fjöldi launþega var þá talinn hafa aukist um 10.300 (5,9%) frá nóvember 2015 til nóvember 2016.“