Starfsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja (með allt að 250 starfsmenn) fjölgaði um 1.400 (3%) milli 2012 og 2013. Heildarlaunagreiðslur í atvinnulífinu námu 584 milljörðum króna árið 2013 og jukust um 8% frá árinu 2012. Heildarlaunagreiðslur jukust um 9% hjá örfyrirtækjum, 10% hjá litlum fyrirtækjum, 9% hjá meðalstórum fyrirtækjum og 6,5% hjá stórfyrirtækjum. Þetta sýnir ný úttekt Hagstofu Íslands sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins og Litla Ísland sem er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum.

Árið 2013 voru 2.400 fyrirtæki starfandi sem ekki voru til árið 2012. Langflest þeirra eru svokölluð örfyrirtæki en þeim fjölgaði um 17% milli ára. Á hverju ári er mikill fjöldi fyrirtækja stofnaður og fjölmörg fyrirtæki hætta einnig starfsemi en 2013 hættu 1.900 fyrirtæki starfsemi sem voru starfandi 2012.

Meðaltekjur starfsmanna fara hækkandi með stærð fyrirtækja. Meðaltekjur í litlum fyrirtækum voru 384.000 kr. á mánuði árið 2013, 434.000 í meðalstórum fyrirtækjum en 464.000 kr. í stórum fyrirtækjum. Meðallaunin voru þannig 12% hærri í stórum fyrirtækjum en í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.