Launagreiðslur lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafa tvöfaldast frá árinu 2010 og á síðasta ári námu þær um 550 milljörðum króna. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Óttars Snædal, hagfræðingi á sviði Samtaka atvinnulífsins, á fundinum „Geta litlu fyrirtækin hækkað kaupið?" Þetta kemur fram í frétt á vef SA.

Erindið fjallaði um umfang og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi sem eru uppistaðan í atvinnulífinu.

Niðurstaða komandi kjarasamninga mun ráða miklu um rekstrarumhverfi fyrirtækja á næstu misserum en sjö af hverjum tíu starfsmönnum á vinnumarkaði vinna hjá litlu eða meðalstóru fyrirtæki, alls um 100 þúsund starfsmenn. Lítil og meðalstór fyrirtæki greiða 68% af greiddum launum í landinu.

Á fundi Litla Íslands ræddu stjórnendur minni fyrirtækja um stöðu og horfur út frá eigin rekstri. Þátt tóku Brynja Brynjarsdóttir, eigandi Hraunsnefs sveitahótels, Eva Hlín Dereksdóttir, framkvæmdastjóri Raftákns verkfræðistofu, Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar og Hrefna Björk Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Rok restaurant. Voru þau sammála um að staðan væri viðkvæm en laun á undanförnum árum hafa hækkað hlutfallslega mest hjá minni fyrirtækjum en launakostnaður vegur þungt rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja.