Fyrirtæki með 1-9 starfsmenn eru mjög mikilvæg í íslensku atvinnulífi. Árið 2016 greiddu þau rúmlega 143 milljarða króna í laun og borguðu rúmlega 37 þúsund manns laun. Þetta kemur fram í sérvinnslu Hagstofu Íslands sem var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins og kynnt á Smáþingi Litla Íslands en alla jafna eru slík fyrirtæki kölluð örfyrirtæki.

Af sérvinnslu Hagstofunnar má lesa að 99,6% fyrirtækja eru lítil og meðalstór fyrirtæki, sem eru þau fyrirtæki sem hafa færri en 250 starfsmenn. Þau höfðu í vinnu hjá sér 71% starfsmanna í atvinnulífinu árið 2016. Því má þó snúa við og segja að stórfyrirtæki hafi 29% af öllum starfsmönnum í vinnu.

Þá fjölgaði litlum og meðalstórum fyrirtækjum um 3.250 á milli áranna 2010 og 2016 en helstu niðurstöður má sjá hér að neðan:

  • 19.500 launagreiðendur voru í atvinnulífinu árið 2016, þar með talið 10.000 einkahlutafélög sem greiða eingöngu eiganda sínum laun
  • Fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn flokkast sem lítil og meðalstór fyrirtæki.
  • 99,6% fyrirtækja á Íslandi eru lítil og meðalstór fyrirtæki
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki höfðu 71% starfsmanna í atvinnulífinu í vinnu árið 2016
  • Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu 66% heildarlauna í atvinnulífinu árið 2016
  • Litlum og meðalstórum fyrirtækjum fjölgaði um 3.250 (20%) milli áranna 2010 og 2016
  • Starfsmönnum lítilla og meðalstórra fyrirtækja fjölgaði um 20.700 (24%) milli 2010 og 2016
  • Heildarlaunagreiðslur í atvinnulífinu námu rúmlega 760 milljörðum króna árið 2016 og jukust um 73% frá árinu 2010.
  • Heildarlaunagreiðslur lítilla og meðalstórra í atvinnulífinu námu rúmlega 530 milljörðum króna árið 2016 og jukust um 78% frá árinu 2010.