Ef gerðir verða kjarasamningar um þrjátíu prósent launahækkanir fyrir stóran hluta vinnumarkaðarins gætu verðbólga og stýrivextir rokið upp. Þetta skrifar Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans í Fréttablaðinu í dag.

Hækki laun samtals um 30 prósent í þriggja ára samningi á stórum hluta vinnumarkaðarins, telur Þórarinn að verðbólgan gæti orðið sjö prósent jafnvel þótt stýrivextir væru tíu prósent. Þórarinn telur að verðbólga gæti orðið um 1 prósent meiri en ella í ár, um 3 prósentum meiri á því næsta og hátt í 4 prósentum meiri árið 2014.

Þórarinn telur að gangi kröfur um miklar hækkanir nafnlauna eftir er hætta á að þeim árangri sem náðst hefur við að koma verðbólgu og verðbólguæntingum að verðbólgunarmarkmiði Seðlabankans sé stefnt í voða. Hann bendir einnig á að hætta sé á að launahækkanir sem eru langt umfram framleiðnivöxt valdi því að fyrirtæki leiti leiða til að draga úr launakostnaði, t.d. með því að hægja á ráðningum eða grípa til uppsagna.

Mikil hækkun launakostnaðar væri einnig til þess fallin að grafa undan efnahagsbatanum og þeim afgangi á viðskipum við útlönd sem býr í haginn fyrir losun fjármagnshafta.

Þórarinn telur að þegar komi að gengi krónunnar vegast á tvenns konar áhrif: mikil hækkun innlends kostnaðar leiðir til hækkunar raungengis sem skapar þrýsting á nafngengi krónunnar til lækkunar en á móti styðja hærri vextir við gengið. „Heildaráhrifin eru þau að nafngengi krónunnar hækkar lítillega á þessu ári en tekur síðan að lækka og er orðið ríflega 8% lægra en ella árið 2018,“ segir Þórarinn.