Kjarasamningar renna út á morgun. Þrátt fyrir það hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lítið rætt um launaliðinn. Þeir hafa hins vegar sammælst um að gera stuttan samning, svokallaðan aðfararsamning, sem gilda mun í eitt ár. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, reiknar með því að næsti fundur verði haldinn fyrir helgi. Í auglýsingu SA var talað um 2 prósenta launahækkun en Gylfi vill ekki gefa upp hver launakrafa ASÍ sé.

„Við höfum verið að funda bæði formlega og óformlega til að ná utan um þetta verkefni,“ segir Gylfi. „Við erum ekki komnir á leiðarenda en þessu miðar eitthvað áfram. Ég á ekki von á því að menn fari að sjá til lands fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku. Á endanum verður þetta samkomulag um launalið og áframhaldandi vinnu í sérmálum. Í svona skammtímasamningi erum við ekki síst að ræða það hvernig við ætlum að haga viðræðunum í vetur um gerð næsta samnings. Það verða flóknar viðræður. Annars vegar við stjórnvöld um efnahagsgrunninn, peningastefnuna og fleira en hins vegar milli okkar.“ Þorsteinn Víglundsson, formaður SA, segir viðræður ganga ágætlega.

„Það er jákvæður tónn í viðræðunum og við erum sammála um öll meginmarkmið,“ segir Þorsteinn. „Enn ber talsvert í milli í launaliðnum en viðræðurnar hafa fram að þessu mest snúist um að móta rammann og samninginn í megindráttum. Við ættum að geta lokið þessu á tiltölulega stuttum tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .