Kaupmáttur hefur einungis hækkað um 7,4% frá undirritun kjarasamninga í maí 2011 á meðan launavísitalan hefur hækkað um 17,6%. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Greiningadeildar Arion banka. Arion banki segir að þetta bendi til þess að kjarasamningarnir hafi falið í sér of miklar launahækkanir sem hafi verið fyrirtækjum um megn.

Greiningadeild Arion banka segir að alla jafna sé talið að svigrúm til launahækkana vaxi í samræmi við framleiðnivöxt vinnuafls. Hækki laun umfram framleiðnivöxt verði því eitthvað undan að láta. Hér á landi hafi nafnlaun hækkað töluvert umfram framleiðni sem þýðii að launakostnaður á framleidda einingu hafi farið vaxandi. „Er gjarnan talað um launaverðbólgu í þessu samhengi en hún leiðir nær alltaf til hækkunar verðlags, annað hvort í gegnum gjaldskrárhækkanir fyrirtækja eða með veikingu gjaldmiðils,“ segir Greiningadeild Arion banka.

Þá segir Greiningardeild að launakostnaður á framleidda einingu hafi farið ört vaxandi hér á landi á undanförnum árum. Þá hefur vöxturinn verið mun meiri en á Evrusvæðinu og hinum Norðurlöndunum, að Noregi undanskildum sem fylgii fast á hæla okkar með 47% vöxt frá árinu 2005 samanborið við 51% vöxt hér á landi. Í uppfærðri spá Seðlabankans sé gert ráð fyrir hægari framleiðnivexti en áður var talið og þar af leiðandi töluverðum vexti í launakostnaði á framleidda einingu, eða u.þ.b. 4,2% á ári.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Viðskiptablaðsins í haust eru það laun í bankakerfinu sem hafa hækkað einna mest.