Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna mun þrýsta raunverði íbúðahúsnæðis ofar að mati Greiningar Íslandsbanka. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Greiningarinnar sem kynnt var á Hofi á Akureyri síðastliðinn miðvikudag. Í skýrslunni er því m.a. spáð að raunverð íbúðahúsnæðis hækki um 6,3% í ár.

Í skýrslunni segir að þróun atvinnutekna markast af launaþróun og heildarvinnustundum og hefur hvort tveggja mikil áhrif á verðþróun íbúða. Þannig hefur hækkun launa umfram verðbólgu undanfarin ár stuðlað að hækkun raunverðs húsnæðis. Kaupmáttur launa hefur hækkað um fimmtung frá því að íbúðaverðið byrjaði að taka við sér að nýju árið 2010 og raunverð húsnæðis einnig um fimmtung. Þá hefur fjölgað í hópi þeirra sem eru starfandi og atvinnuleysi minnkað og þannig eru fleiri sem geta sýnt fram á tekjustreymi, staðið undir afborgunum lána og ráðist í íbúðarkaup. Hefur atvinnuleysið á ofangreindu tímabili farið úr 8,7% niður í 5,0% og hlutfall starfandi úr 76% í 80%. Í alþjóðlegum samanburði er þróun raunverðs íbúða hér á landi ekki úr takti við það sem sést hefur í öðrum löndum þar sem hagkerfið hefur verið að taka við sér.

Raunverð hækki um 6,3%

Útlit er fyrir að launahækkanir verði umfram verðbólgu á næstu misserum, að fjöldi starfandi aukist og að atvinnuleysi minnki að mati Greiningar Íslandsbanka. Kaupmáttur ráðstöfunartekna mun að mati hennar halda áfram að hækka vegna þessa og þrýsta raunverði íbúðarhúsnæðis ofar. Þá telur hún að raunverð íbúða muni halda áfram að hækka yfir spátímabilið. Reiknar hún með því að raunverð hækki um 6,3% í ár, 5,1% á næsta ári og 3,8% árið 2017. Mun hækkunin á þessu tímabili verða mismunandi á milli landshluta og tegunda íbúða.

Raunverð íbúða og kaupmáttur launa. Heimild: Greining Íslandsbanka
Raunverð íbúða og kaupmáttur launa. Heimild: Greining Íslandsbanka

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að fleiri þættir hafa áhrif á þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna en atvinnutekjur og fjöldi starfandi. Þannig hafði það umtalsverð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna þegar þeim var heimilað að nýta hluta séreignarsparnaðar síns til neyslu á árinu 2009. Áhrif þessa á ráðstöfunartekjur heimilanna átti eflaust sinn þátt í því að hleypa nýju lífi í íbúðamarkaðinn á þeim tíma. Síðan þá hefur dregið úr aðgengi að séreignarsparnaði og var heimildin felld niður frá og með árinu 2015. Vinnur þetta á móti launahækkunum og fjölgun vinnustunda í verðþróun íbúðarhúsnæðis um þessar mundir.

Raunverð íbúða, kaupmáttar launa og ráðstöfunartekna, vísitölur. Heimild: Greining Íslandsbanka
Raunverð íbúða, kaupmáttar launa og ráðstöfunartekna, vísitölur. Heimild: Greining Íslandsbanka