Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, telur að fyrirtæki landsins munu eiga erfitt að standa undir launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum á síðasta ári. Ef launahækkanirnar ganga eftir í núverandi ástandi mun það leiða til meira atvinnuleysis en ella.

„Því miður er engin samstaða um það í verkalýðsforystunni að taka mið af aðstæðum, sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu okkar, né ríkir samstaða um að finna leiðir til að tryggja sem best atvinnu fólks og hag fyrirtækjanna sem greiða laun þess,“ segir Eyjólfur í ávarpi í ársskýrslu SA . „Tjón þeirrar sundrungar er þegar orðið mikið og mun fara vaxandi. Fyrir því verður launafólk fyrst og fremst.“

Eyjólfi finnst jákvætt að vextir á lánum til fólks og fyrirtækja séu lægri en nokkru sinni fyrr. Þeir þurfi þó að lækka enn frekar til að ýta fjármunum úr ríkisbréfum yfir í arðbærar fjárfestingar í atvinnulífinu.

Hann telur mikilvægasta verkefnið framundan sé að ná íslensku atvinnu- og efnahagslífi af stað á ný. Eyjólfur segir samtökin styðja aðgerðir stjórnvalda í að koma fyrirtækjum í gegnum niðursveifluna þannig að tjónið verði ekki langvarandi og óbætanlegt.

„Sterk fyrirtæki og öflugt atvinnulíf eru forsenda þess að þjóðin geti sem fyrst endurheimt lífskjör sem lagður var grunnur að með kjarasamningunum á síðasta ári,“ segir Eyjólfur Árni.