Bandaríska verslunarkeðjan Wal-Mart hefur nú stytt vinnutíma starfsmanna sinna eftir umtalsverða launahækkun í apríl.

Starfsmenn eru beðnir um að yfirgefa vaktir sínar fyrr eða taka lengri hádegismat til að lækka launakostnað, en Bloomberg greindi frá þessu eftir að hafa rætt við tugi starfsmanna Wal-Mart í Bandaríkjunum.

Í einni Wal-Mart verslun í Houston í Bandaríkjunum voru átta sölumenn og deildarstjórar beðnir um að fara snemma, samkvæmt starfsmanni þar sem ræddi við Bloomberg. Búðin hefur fengið það verkefni að fækka vinnustundum um 200 á viku.

Önnur Wal-Mart verslun í Texas þurfti að fækka vinnustundum um 1.500 samkvæmt frétt Bloomberg, en launakostnaður fyrirtækisins hefur hækkað eftir að lágmarkslaun þess voru hækkuð upp í 9 dollara á tímann í apríl.

Talsmaður Wal-Mart staðfesti við Bloomberg að fyrirtækið væri að fækka vinnustundum en það væri einungis í verslunum sem væru með of marga starfsmenn.