Launahlutfall hér á landi er mjög hátt auk þess sem að laun á hverja unna klukkustund eru tiltölulega lág í samanburði við flest þau ríki sem við berum okkur saman við. Ástæðan fyrir því er lítil framleiðni samkvæmt nýrri skýrslu heildarsamtaka vinnumarkaðarins sem kom út í dag. Að samtökunum standa fern heildarsamtök launafólks, þ.e. ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, og vinnuveitendamegin SA, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að launahlutfall hér á landi er mjög hátt og raunar hvergi hærra í alþjóðlegum samanburði og að laun á hverja unna klukkustund séu tiltölulega lág í samanburði við flest V-Evrópuríki sem við berum okkur saman við.

„Þetta kann að sýnast mótsögn, en skýringin liggur í lítilli framleiðni hér á landi og samsvörun er á milli stöðu landsins á mælikvarða launa og framleiðni. Framleiðni hér á landi er 75-80% af meðaltali viðskiptalanda okkar. Árlegur vöxtur framleiðni á vinnustund var 1,7% síðustu áratugi og vöxtur heildarframleiðni var um 1%. Verkefnið hlýtur því að vera að auka framleiðni með bættu skipulagi og betri verkferlum. Miklar sveiflur eru í launahlutfalli hér á landi og miklu meiri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þessa niðurstöðu má rekja til almenns óstöðugleika í efnahagslífinu, en síðari ár hefur raungengisþróun haft afgerandi áhrif,“ segir í skýrslunni.

Fylgjum ekki norrænni fyrirmynd við gerð kjarasamninga

Þar segir einnig að á Norðurlöndunum hefur skapast löng hefð fyrir verklagi við gerð kjarasamninga og samskiptum milli samtaka launafólks og atvinnurekenda og stjórnvalda sem læra má af og um er fjallað í þessari skýrslu. „Í aðdraganda kjarasamninga hafa aðilar vinnumarkaðar komið sér saman um mat á ástandi og horfum í efnahagslífinu og metið í sameiningu launaþróun á samningstímanum. Í sumum tilvikum hafa aðilar beinlínis metið hvert svigrúm til launabreytinga er. Áherslan hefur legið á að viðhalda samkeppnisstöðu landanna og stöðugu gengi gjaldmiðla. Þannig hefur útflutningsiðnaðurinn jafnan verði leiðandi um launaþróunina. Í stað þess að þeir sem fyrstir semji beri skarðan hlut frá borði hefur fordæminu verið fylgt og öðrum samningum til lykta leitt samkvæmt því. Þetta fyrirkomulag hefur í stórum dráttum staðist tímans tönn, jafnvel þótt gengi gjaldmiðla fljóti og verðbólgumarkmið leysi fastgengisstefnu af hólmi sem leiðarljós peningastefnu. Gerð kjarasamninga á Íslandi víkur í grundvallaratriðum frá þessari norrænu fyrirmynd,“ segja skýrsluhöfundar.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni