Rekstrargrundvelli veitingastaða á Íslandi er verulega ógnað ef fyrirhugaðar taxtahækkanir Lífskjarasamningsins verða að veruleika á næstu tveimur árum að því er Fréttablaðið greinir frá upp úr skýrslu KPMG fyrir nýstofnuð Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði.

Þar kemur fram að ef þær taxtahækkanir sem fyrirhugaðar eru í Lífskjarasamningnum ganga eftir verður launahlutfall íslenska veitingageirans, það er kostnaðurinn sem hlutfall af tekjum, komið yfir 50% árið 2022 og þá líklega það hæsta í heimi.

Jafnframt segir að að launakostnaðarhlutfall veitingageirans hér á landi sé nú þegar sá langhæsti á Norðurlöndum, og öðrum samanburðarlöndum, eða 41%, meðan hlutfallið í Noregi sé 33,10%, 33% í Danmörku, 28% í Bretlandi, 24,5% í Svíþjóð og 24% í Finnlandi.

Styttri yfirvinnutími og minna launaálag á yngra starfsfólk

Bent er á að ein skýring sé sú að fyrirkomulag yfirvinnutaxta veitingageirans á Íslandi taki ekki tillit til lágs starfsaldurs líkt og gert sé í öðrum löndum sem og yfirvinnutímabilið er víðara.

Í Svíþjóð sem dæmi taki kvöldvinnutaxtar tillit til aldurs og starfsaldurs starfsmanna, en tæplega 60% allra vinnustunda í veitingageiranum eru unnar utan hefðbundins dagvinnutíma, svo margföldunaráhrif verða í launakostnaði við taxtahækkanir.

Þannig er 33% álag á dagvinnutaxta eftir 17:00 á virkum dögum hér á landi og 45% álag um helgar, en til að mynda hefjist kvöldvinna ekki fyrr en 20:00 í Svíþjóð og helgartaxtinn tekur ekki gildi fyrr en eftir 16:00 á laugardögum auk sunnudaga.

Að teknu tilliti til þess að bæði á Íslandi og í Svíþjóð er yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna geirans ungt fólk, eða 65% undir 25 ára á Íslandi, þá er þessi mismunandi skilgreining á dagvinnutíma og mismikla hækkun eftir aldri og starfsaldri, skýringin á þeim mikla mun sem er á launahlutfalli milli landanna.