Ein stærsta bankasamstæða Bandaríkjanna, Citigroup, mun á næstunni endurgreiða bandarískum yfirvöldum 20 milljarða Bandaríkjadali af neyðarláni sem bankinn fékk í þremur skömmtum hjá yfirvöldum um síðustu áramót.

Þá tilkynnti Wells Fargobankinn í upphafi vikunnar að bankinn hyggðist endurgreiða þá 25 milljarða dali sem bankinn fékk í neyðarlán strax í upphafi næsta árs.

Í upphafi þessa mánaðar var tilkynnt að Bank of America hefði náð samkomulagi við stjórnvöld um að endurgreiða 45 milljarða neyðarlán.

Þar með er endurgreiðslu neyðarlánanna sem voru veitt úr hinum svokallað TARP sjóði (e. Troubled Asset Relief Program), sem upphaflega var settur upp til að veita fjármálastofnunum neyðarlán, að mestu lokið. Allir bankar sem fengu neyðarlán hafa annað hvort endurgreitt eða munu klára að greiða til baka í janúar.

Einu félögin sem ekki hafa greitt neyðarlán sín til baka og eru enn háð aðstoð ríkisins eru tryggingarisinn AIG og bílaframleiðandinn General Motors.

TARP-sjóðurinn var upphaflega 700 milljarða dala neyðarsjóður sem settur var á fót af ríkisstjórn George W. Bush, þáverandi forseta. Fjölmörg fyrirtæki fengu minni lán en bankarnir en flest þeirra hafa nú endurgreitt lánin.

Áður höfðu aðrir stórir bankar á borð við JPMorgan og Goldman Sachs fengið heimild yfirvalda til að endurgreiða lánin en slík heimild er veitt af bandaríska seðlabankanum hafi bankanum tekist að sýna fram á nógu góða fjárhagsstöðu til að reka sig óstuddur og án frekar aðstoðar yfirvalda.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .