Launabreytingar á Íslandi eru ekki aðeins háðar tíma, heldur einnig stöðu hagkerfisins að hverju sinni. Þetta kemur fram í nýrri hagfræðilegri rannsókn sem birt var í tímaritinu Journal of Monetary Economics.

Höfundar rannsóknarinnar eru þau Rannveig Sigurðardóttir, staðgengill aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði og peningastefnu í Seðlabanka Íslands og Jósef Sigurðsson doktorsnemi við Institute for International Economic Studies við Stokkhólmsháskóla.

Íburðarmiklar sveiflur á vinnumarkaði

Rannsóknin fjallar eins og fyrr segir um launakjör á Íslandi, en ein meginforsenda þess að peningastefna seðlabanka geti haft raunveruleg áhrif á efnahagsumsvif er sú að laun og verð séu tregbreytanlegar stærðir.  Því er nauðsynlegt að vita að hvaða marki laun eru tregbreytanleg og hvað það er sem veldur því helst að þau breytist.

Í rannsókn hagfræðinganna er notast við íslensk örgögn, en vegna þess hve íburðarmiklar vinnumarkaðssveiflur Ísland hefur gengið í gegnum á síðustu árum eru gögn um íslenska vinnumarkaðinn ákjósanleg til rannsóknar á þessu efni.

Ekki aðeins háðar tíma

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að launabreytingar séu ekki aðeins háðar tíma, eins og jafnan er gert ráð fyrir, heldur séu þær einnig bundnar við stöðu hagkerfisins að hverju sinni. Launabreytingar eru þannig bæði samstilltar í tíma og eiga sér stað með föstu millibili, en eru einnig háðar verðbólgu og atvinnuleysi.

Niðurstöðurnar veita mikilvægar upplýsingar um áhrifamátt peningastefnunnar: þegar launabreytingar eru stöðu-háðar mun peningastefna hafa, að öðru jöfnu, veikari áhrif á efnahagsumsvif en þegar breytingar eru aðeins háðar tíma.

Rannsóknina má lesa í heild sinni með því að smella hér.