Heildarlaunakostnaður á hverja greidda stund jókst í öllum geirum á öðrum ársfjórðungi og skýrist það af eingreiðslum sem samið var um í kjarasamningum í vor. Þannig jókst launakostnaður í verslun um 6,3%, í byggingariðnaði um 6,1%, í iðnaði um 4,6% og í samgöngum um 2,9%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar en vísitala launakostnaðar var birt í morgun. Ttekið skal fram að miðað er við breytingar á milli fjórðunga en ekki ára.

Þegar litið er til launakostnaðar án óreglulegra liða, svo sem eingreiðslna, kemur í ljós að í verslun stóð launakostnaður í stað, í samgöngum jókst hann um 1% og í byggingariðnaði um 0,3% en í iðnaði dróst kostnaður launa saman um 1,2%.