Seðlabanki Íslands áætlar að heildarlaunakostnaður fyrirtækja muni aukast um 1,3 milljarð á ári vegna skuldaniðurfellingartillagna ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru þann 30. nóvember.

Í Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem kom út i dag, er bent á að við það að fleira launafólk leggur hluta launa sinna í séreignarsparnað hækkar mótframlag launagreiðenda. Miðað við forsendur sem bankinn gefur sér um aukna þátttöku í séreignarsparnaði megi ætla að aukið mótframlag hækki heildarlaunakostnað fyrirtækja um 1,3 ma.kr. á ári í þrjú ár eða sem svarar 0,2% af heildarlaunakostnaði.

„Launakostnaður á fram­leidda einingu hækkar því sem þessu nemur og ætti að auka verðbólgu lítillega að öðru óbreyttu. Fyrirtæki gætu þó einnig brugðist við hærri launakostnaði með því að hægja á ráðningum sem vega myndu á móti áhrifum á eftirspurn og verðbólgu. Gert er ráð fyrir að efri og neðri mörk þessara áhrif liggi á bilinu 0,16-0,23% miðað við mismunandi for­sendur um áhrif aðgerðarinnar á þátttöku launafólks í séreignarsparnaði,“ segir í Peningamálum.