Laun og launatengd gjöld hjá skilanefnd og slitastjórn Glitnis námu 401 milljón króna á árinu 2010, samkvæmt ársuppgjöri sem birt var í dag. Árið 2009 var kostnaðurinn 300 milljónir. Undir liðnum laun og launatengd gjöld nema laun alls 327 milljónum króna, samanborið við 248 milljónir. Árslaun Kristjáns Óskarssonar, framkvæmdastjóra, voru 21 milljón króna.

Starfsgildum fjölgaði um 9 á síðasta ári samkvæmt ársreikningi og voru 31 í lok árs 2010. Samkvæmt því námu meðallun starfsmanna á mánuði um 880 þúsund krónum. Meðallaun árið 2009 voru um 940 þúsund krónur.

Tekið er fram í ársreikningi að auk 31 starfsmanns hafi fimm starfað sem verktakar fyrir Glitnir utan Íslands.

Skilanefnd og slitastjórn með 348 milljónir króna

Greiðslur til slitastjórnar og skilanefndar námu alls 348 milljónum króna, samanborið við 273 milljónir árið 2009. Í skilanefnd og slitastjórn sitja fimm manns og eru því með að meðaltali með um 70 milljónir króna í árslaun eða 5,8 milljónir á mánuði.

Í skilanefnd bankans sitja Árni Tómasson, Heimir V. Haraldsson og Þórdís Bjarnadóttir. Í slitastjórn eru Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, samkvæmt ársreikningi.