Rekstrartekjur Landspítalans námu tæplega 8,3 milljörðum króna í fyrra, það er töluverð aukning frá árinu 2015 þegar tekjurnar námu 6,6 milljörðum. Þetta kemur fram í ársreikningi Landspítalans fyrir árið 2016, sem var birtur á þriðjudaginn. Árið 2013 námu rekstrartekjurnar 4,6 milljörðum og á fjórum árum hafa tekjurnar hækkað um 79%.

Þó tekjurnar hafi hækkað mikið undanfarin ár eru þær lágar þegar stóra  myndin er skoðuð. Í fyrra voru þær einungis 13,5% af rekstrargjöldunum, sem námu ríflega 61 milljarði króna. Gjöldin námu 54,7 milljörðum árið 2015 og hækkuðu því um 11,6% á milli ára. Frá árinu 2013 hafa rekstrargjöld spítalans hækkað um 35%.

Lykiltölur Landspítalans
Lykiltölur Landspítalans

Milljarðar í yfirvinnu

Langstærsti hluti rekstrarkostnaðar spítalans eru laun og launatengd gjöld. Þau námu 43,6 milljörðum króna í fyrra samanborið við 38,6 milljarða árið 2015. Launakostnaðurinn hækkað því um 12,7% á milli ára. Árið 2013 nam þessi kostnaður 31,9 milljörðum og hefur hann því hækkað um 37% á fjórum árum.

Eins og gefur að skilja er stærsti hluti launakostnaðar dagvinnulaun en í fyrra námu þau 24,5 milljörðum króna samanborið við 21,5 árið 2015 og 18,2 árið 2013. Kostnaður vegna greiddra dagvinnu hefur því hækkað um tæp 14% milli ára og 35% frá 2013.
Kostnaður vegna greiddrar yfirvinnu hefur hins vegar hækkað mjög mikið á síðustu árum. Í fyrra nam þessi kostnaður 5 milljörðum króna samanborið við 3,7 milljarða árið 2015 og nemur hækkunin 34,5%. Árið 2013 greiddi spítalinn tæplega 3 milljarða í yfirvinnu og á fjórum árum hafa greiðslur vegna yfirvinnu á spítalanum hækkað um 68%.

Í fyrra voru 3.954 ársverk á Landspítalanum samanborið við 3.739 árið 2015 en þá höfðu verkföll áhrif á starfsemi spítalans.  Árið 2013 voru ársverkin 3.666.

Fyrirsjáanlegt er að launakostnaður spítalans muni enn aukast á þessu ári því nú standa yfir kjaraviðræður ríkisins og Læknafélags Íslands en samningar lækna losna eftir þrjá daga eða 30. apríl. Í ágúst losnar samningur Skurðlæknafélags Íslands og á sama tíma fellur gerðardómur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga úr gildi.

Launakostnaður Landspítalans
Launakostnaður Landspítalans

52,6 milljarðar frá ríkinu

Framlag ríkisins til rekstrarins, samkvæmt upplýsingum í rekstrarreikningi, nam 52,6 milljörðum króna í fyrra. Framlagið jókst því um tæplega 4,6 milljarða frá árinu 2015. Á árinu 2013 nam framlag ríkisins tæplega 39,2 milljörðum og á fjórum árum hefur ríkisframlagið því aukist um 34%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .