*

laugardagur, 4. apríl 2020
Erlent 7. ágúst 2018 12:26

Launakostnaður háir Domino‘s í Noregi

Hagnaður Domino's dróst saman um 10% á fyrri helmingi ársins vegna vaxandi launakostnaðar í Noregi.

Ritstjórn
Velta Domino's í Noregi tæplega þrefaldaðist, en það dugði ekki til, því launakostnaður óx enn hraðar.
Aðsend mynd

Hagnaður Domino‘s Pizza Group, alþjóðasamsteypu Domino‘s, dróst saman um 10% á fyrri helmingi ársins og nam tæpum 42 milljónum sterlingspunda. Hlutabréfaverð lækkaði um sama hlutfall, og hefur ekki verið lægra í tæpt ár. Helsta ástæða versnandi afkomu er hærri kostnaður í Noregi. Reuters segir frá.

Domino‘s rekur 34 útibú í Noregi og til stendur að opna fleiri. Velta þeirra næstum þrefaldaðist, en launakostnaður óx enn hraðar. Framkvæmdastjóri flatbökukeðjunnar, David Wild, sagðist þó búast við batnandi afkomu á seinni hluta ársins.

„Velta sölustaða okkar erlendis heldur áfram að batna, en það hefur tekið okkur tíma að fínpússa reksturinn og ná kostnaði niður, sérstaklega í Noregi.“ sagði Wild, en höfuðstöðvar keðjunnar eru í Bretlandi.

Góð afkoma í Bretlandi bætti þó að einhverju leyti upp fyrir erfiðleikana erlendis, en félagið er með tæplega helmings markaðshlutdeild heima fyrir. 

Stikkorð: Domino's