Við samanburð á launakostnaði á unna stund í Evrópulöndum var launakostnaður á Íslandi yfirleitt nálægt meðaltali ríkja Evrópusambandsins á árinu 2008. Launakostnaður á unna stund var að jafnaði hæstur í ríkjum Vestur-Evrópu en lægstur í nýjustu aðildarríkjum Evrópusambandsins. Hagstofan birtir í dag gögn um launakostnað á árinu 2008.

Árið 2008 var hlutfall launa 81,3% af heildarlaunakostnaði á móti 18,7% hlutfalli annars launakostnaðar en launa. Launagreiðendur bera ýmsan annan launakostnað en beinar launagreiðslur til starfsmanna sinna. Árið 2008 var stærstur hluti þessa kostnaðar vegna mótframlags launagreiðenda í lífeyris- og séreignarsjóði eða 9,8% af heildarlaunakostnaði.

Þá hefur samsetning heildarlaunakostnaðar á Íslandi tekið nokkrum breytingum frá árinu 2000 þar sem hlutfall annars launakostnaðar en launa hefur vaxið nokkuð umfram þátt launa af heildarlaunakostnaði. Árið 2008 var hlutfall annars launakostnaðar en launa hæst í heilbrigðis- og félagsþjónustu eða 21,6% en lægst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 15,5%.