Heildarlaunakostnaður á hverja greidda stund dróst saman um 1,1% - 4,6% á milli ársfjórðunga, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Mestur var samdrátturinn í verslun eða 4,6%. Minnstur var hann í byggingarstarfsemi eða 1,1%.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að heildarlaunakostnaður án óreglulegra greiðslna á greidda stund jókst frá fyrri ársfjórðungi um 0,8% í iðnaði en dróst saman um 0,3% í byggingarstarfsemi, 2,1% í verslun og um 2,2% í samgöngum. Í heildarlaunakostnaði án óreglulegra greiðslna eru undanskildar greiðslur sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili eins og desember- og orlofsuppbót.

Árshækkun heildarlaunakostnaðar á greidda stund frá þriðja ársfjórðungi í fyrra var á bilinu 3,1% til 5,8%. Mest var hækkunin í byggingarstarfsemi en minnst í samgöngum. Á sama tímabili jókst heildarlaunakostnaður án óreglulegra greiðslna mest í byggingarstarfsemi eða 6,2% en minnst í verslun 4,1%.

Hagstofan