Heildar launakostnaður Landsbanka Íslands hf. nam 1.605 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins. Hér á landi nam launakostnaðurinn 294 milljónum og skiptist hann niður á 53 starfsmenn. Það gerir mánaðalaun fyrir hvern starfsmann upp á tæplega ein milljón á mánuði að meðaltali.

Launakostnaður bankans í London nam 762 milljónum króna eða að meðaltali um 2,4 milljónum króna á starfsmann á hverjum mánuði. Í Amsterdam í Hollandi var kostnaðurinn 94 milljónir króna sem skiptist niður á þrjá starfsmenn. Sem gerir um 5,2 milljónir króna á mánuði að meðaltali.

Lögfræði- og annar sérfræðikostnaður nam tæplega þremur milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af keypti Landsbankinn lögfræði- og sérfræðiþjónustu fyrir tæplega 2,5 milljarða erlendis. Bankinn keypti lögfræði- og sérfræðiþjónustu fyrir 470 milljónir hér á landi á fyrstu sex mánuðum ársins. Lárentínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, vildi ekki gefa upp á blaðamannafundi að loknum fundi í dag hvert  þessar 470 milljónir runnu. Hann sagði kostnaðinn við sérfræðþjónustuna vera háan að það skýrðist öðru fremur að því að verkefnið væri gríðarlega umfangsmikið. Kristinn Bjarnason lögmaður, sem er aðstoðarmaður Landsbankans í greiðslustöðvun, sagði á blaðamannafundinum mikla þörf vera fyrir sérfræðiþjónustu af ýmsu tagi. Ekki síst á sviði lögfræði.